Um Smágarðana

Páfuglabekkur Einar Birgisson

Tillagan er vel framsett og frumleg. Listræn útfærsla bekks með samspili timburs og randagrass. Tillagan er óhefðbundin útfærsla á smágarði og verður fyrir vikið að einskonar skúlptúr.

Farfuglagarður Birkir Einarsson

Glaðleg og skemmtileg hugmynd að farfuglagarði. Tillagan eflir ímyndunarafl þeirra sem á horfa og höfðar vel til barna með litríkum smáhúsum sem mynda einskonar smáþorp fyrir fugla. Texti með tillögunni er líflegur og húmorsríkur.

Þúfnahopp Dagný Bjarnadóttir

Tillaga sem er skemmtileg og lifandi framsett. Allar tillögur í möppu eru áhugaverðar, en bent er á tillöguna Þúfnahopp til útfærslu. Tillagan höfðar til leikja barna og er myndrænt þúfnalandslag sem íslendingar þekkja svo vel. Tillaga ferningur- Hringur Sigríður Brynjófsdóttir

Á einfaldan hátt er byggt upp garðrými, íverustaður sem byggður er úr rammíslensku efni. Formið er einfalt og sterkt, en þó með gott notagildi þar sem bekkur er staðsettur í miðju garðsins, en veggina sjálfa má einnig nota sem hvíldarstaði og höfða þeir einnig vel til barna.

Stoppa hér. Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir

Hér er byggður upp einfaldur áningastaður sem hentar á lítil svæði hvar sem er í bæjarfélögum. Tillagan sýnir fram á það hversu rúmgóð og hlýleg áningarsvæði má gera á smáum svæðum. Stílhrein og formföst tillaga með hleðslu, timbri og gróðri.

Kryddkistan Björn Axelsson

Frumleg útfærsla á matjurtagarði, sem skapar nýja sýn á notkun timburs, með timburþaki. Tillagan skapar skemmtilegt rými og veitir innsýn í þá möguleika sem felast í lóðréttri ræktun matjurta. Tillagan er í takt við tíðarandann þar sem matjurtaræktun er vaxandi þjóðaríþrótt.