Skemmtilegt að skoða

Einstakar náttúruperlur má finna í Hveragerði. Til dæmis Hveragarðinn þar sem fræðast má um mismunandi tegundir hvera, listigarðinn og Varmá sem liðast í gegnum miðbæinn, Hamarinn og fjölbreytta göngustíga.

Skrúðgarðurinn

Fossflöt-01 Skrúðgarðurinn markast af Breiðumörk, Skólamörk og Varmá. Ræktun skrúðgarðs hófst þar árið 1983 og er þar nú fallegur gróður með leiksvæði, bekkjum og borðum sem ferðamenn geta nýtt sér til útivistar. Á bakka Varmár neðan við Reykjafoss má sjá leifar af gömlum húsgrunni. Grunnurinn markar upphaf byggðar í Hveragerði því þar var ullarverksmiðja sem reist var árið 1902 og nýtti fallorku fossins. Innar í Varmárgilinu eru uppistandandi veggir rafstöðvar sem gerð var árið 1929. Þaðan má rekja undirstöður fallstokksins að heillegri stíflunni neðan Hverahvamms. Nýr og flottur göngustígur liggur meðfram Varmánni þar sem má sjá gamla húsgrunninn.Í gilinu eru hinar fegurstu litasamsetningar og hveralandslag sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Smágarðar

Blómasýning2009 132 Smágarðarnir urðu til í kjölfarið af smágarðasamkeppninni sem haldinn var á Blóm í bæ árið 2009. Þarna er hægt að setjast niður og snæða nesti og annað. Þúfnahoppið er tilvalið fyrir krakka að leika sér og þarna eru stígar sem hægt er að hjóla og ganga eftir. Hér má sjá upplýsingar um smágarðana sem slíka.

Reykjadalur

heiti lækur Reykjadalurinn er sannkölluð útivistarperla en þarna er ein sú flottasta gönguleiðin í Hveragerði. Volgar laugar og litrík hverasvæði gera landsvæðið að einstakri náttúruperlu sem enginn útivistarmaður ætti að láta fram hjá sér fara. Sundföt eru nauðsynleg með í för en heiti lækurinn er helsta aðdráttaraflið í dalnum en hægt er að baða sig í læknum, tekur u.þ.b 1 1/2 - 2 klukkustundir að ganga að honum. Gönguleiðin er vel merkt og má sjá falleg hitasvæði á leiðinni en varast má að fara ekki útaf af gönguleiðinni.

dalir Hér má sjá kort af gönguleiðunum upp af Hveragerði.

Golfvöllurinn í Gufudal

golf Áhugamenn um golf ættu ekki að láta golfvöllinn í Hveragerði fram hjá sér fara. Fallegt umhverfi og gæði völlsins eru í fyrsta flokki en til að komast að vellinum er keyrt aðalgötu Hveragerðis, Breiðumörk , upp brekkuna og inní Gufudalinn.
Allar upplýsingar má finna á heimasíðu golfklúbbsins www.ghg.is