Ferðamenn
Í Hveragerði er margt markvert að sjá og auðveldlega má eyða drjúgum tíma í að skoða það sem bærinn hefur uppá að bjóða.
Byrja mætti daginn á hverasvæðinu þar sem fræðast má um mismunandi tegundir hvera en þeir eru einkar fjölbreyttir á svæðinu.
Hveragerðiskirkja gnæfir yfir gestum en rétt handan hverasvæðisins eru skáldagöturnar Frumskógar og Bláskógar þar sem mörg af stórskáldum þjóðarinnar bjuggu á árdögum byggðar í Hveragerði. Rétt hjá kirkjunni er Sandhólshverinn og ekki er langt í skógræktina undir Hamrinum en þar hafa verið lagðar fallegar gönguleiðir um skógi vaxnar hlíðar.
Í lystigarðinum í miðbænum er notalegt að borða nestið sitt um leið og tærnar eru bleyttar í ylvolgri ánni og dást að Reykjafossi. Sé gengið yfir göngubrúna í lystigarðinum og upp brekkuna handan árinnar er komið að sundlauginni Laugaskarði þar sem einkar ánægjulegt er að ljúka deginum í sjóðheitum pottunum eða heilsusamlegu gufubaðinu áður en einhver hinna fjölmörgu veitingastaða bæjarins eru heimsóttir.
Undir flipunum hér til hliðar má finna upplýsingar um áhugaverða staði í Hveragerði ásamt greinargóðum upplýsingum um hverasvæðið í miðbænum og götukorti af bæjarfélaginu.